Afríka

Í september 2012 hóf ég störf hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, sem verkefnastjóri í Malaví. Fjölskyldan fluttist til Lilongwe í byrjun október. Ég sótti um starfið um vorið, meðan ég var enn bæjarstjóri í Hafnarfirði, en alltaf lá fyrir að ráðningartímanum lyki um mitt sumar 2012. Þegar ég sá auglýsinguna um starfið í Malaví veitti ég henni strax athygli, en varð ekkert gagntekinn af henni fyrr en eftir að ég hafði spurt ráðningarstjóra hjá Capacent hvort hún teldi þetta eitthvað sem ég ætti að velta fyrir mér? Eftir mjög eindregna hvatningu af hennar hálfu, ákvað ég að láta á reyna.

Ekki sé ég eftir því - og er ráðningarstjóranum ævarandi þakklátur.

Ráðningarferlið var strangt og tók langan tíma, enda umsækjendur margir og með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Um sumarið tók ég ein 4 eða 5 skrifleg próf og fór í allmörg viðtöl, bæði í síma og auglit til auglitis. Það var síðan ekki fyrr en nokkuð var liðið á ágústmánuð að mér var tilkynnt að mér stæði starfið til boða. Ég þurfti ekki að hugsa mig um lengi, enda gerði áhuginn ekki annað en að aukast eftir því sem tíminn leið. Það tók mig ekki langan tíma að taka ákvörðun, enda hefði ég ekki sótt um í upphafi nema að fengnum stuðningi frú I.

Þó svo ég hafi vonað og látið mig dreyma - var draumurinn samt sem áður ekkert sérlega raunverulegur. Ég var því ekkert sérlega vel undir það búinn sem á eftir kom - semsagt að leigja húsið, pakka búslóðinni og koma henni í geymslu, kveðja bæjarstjórnina og hnýta lausa enda útum allt. Það sýndi sig í því ferli öllu hvað vinir eru mikilvægir.

Nú gæti virst við fyrstu sýn sem viðfangsefnin í þessu starfi séu að stórum hluta gerólík því sem ég fékkst við í starfi mínu sem bæjarstjóri. Sannleikurinn er þó sá, að það er allmargt líkt. Í núverandi starfi snúast viðfangsefnin um grunnþjónustu - neysluvatn, grunnmenntun og lýðheilsu. Þú snúast um að áætla fjárþörf í verkefni, stilla upp fjárhagsáætlunum, eiga samskipti við embættismenn, fylgjast með ráðstöfun fjármuna og fylgjast með viðhorfum samstarfólks og almennings til þess sem verið er að gera. Nákvæmlega eins og í bæjarstjórastarfinu!

Það hefur verið ómetanleg lífsreynla að fá tækifæri til að kynnast Malaví. Dætur mínar hafa blómstrað - eignast góða vini - og eru í frábærum alþjóðlegum skóla. Þær munu búa að þessari reynslu alla tíð. Við komum öll breyttar manneskjur til baka - þegar þar að kemur.